Slasaður knapi fluttur með þyrlu á sjúkrahús

Þyrla Landhelgisgæslunnar við Frostastaðavatn. Ljósmynd/Landsbjörg

Í dag barst hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Landmannalaugum aðstoðarbeiðni frá hópi 20-30 manna hóps hestafólks, sem var að koma frá Landmannahelli og ætluðu inn í Landmannalaugar.

Þar hafði kona fallið af baki við Frostastaðavatn og var óttast um að hún hefði hlotið áverka á hrygg. Björgunarfólk hélt þegar á staðinn og bjó konuna til flutnings. Ákveðið var að fá þyrlu frá Landhelgisgæslunni til að flytja konuna á sjúkrahús. Ekki voru góðar aðstæður til að lenda þyrlu á slysstað svo konan var flutt skamma leið með bíl björgunarsveitar og færð í þyrluna.

Í dag varð annað samskonar óhapp á svipuðum slóðum þar sem kona féll af hestbaki. Hún var flutt í bíl björgunarsveitar til móts við sjúkrabíl, en hún fékk höfuðáverka við fallið.

Nú í kvöld var hálendisvaktin kölluð að Illagili að Fjallabaki og er á leið þangað núna til að aðstoða rútubílstjóra og tuttugu farþega hans en rútan situr föst í á.

Fyrri greinÆvar með tvöfalda þrennu gegn Afríku
Næsta greinStokkseyringar sterkir heima