Slasaðist þegar þaksperra féll á vinnupall

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Síðastliðinn fimmtudag slasaðist karlmaður sem var við vinnu í húsi sínu á Selfossi.

Þaksperra, sem maðurinn var að losa, féll á vinnupall sem maðurinn stóð á og felldi bæði pallinn og manninn.

Nágranni kom til aðstoðar og var viðkomandi fluttur á sjúkrahús í Reykjavík en útskrifaður fljótlega og meiðsl ekki talin alvarleg.

Á laugardag slasaðist 14 ára drengur þegar hann stökk yfir skurð við Nesjar vestan Hafnar. Hann lenti ofan í skurðinum og var líkegast fótbrotinn.

Sama dag féll maður af húsþaki á Höfn þegar hann var við málningarvinnu. Hann var fluttur á sjúkrastofnun en ekki talinn alvarlega slasaður.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinÞrettán ára Íslandsmeistari í U17 ára flokki
Næsta greinVarað við vatnavöxtum og grjóthruni