Slasaðist á Ingólfsfjalli

Ungur karlmaður slasaðist á fimmta tímanum í dag þegar hann rann til á ís og féll í brattlend á Ingólfsfjalli, á gönguleiðinni austan við Þórustaðanámu.

Mikil ís var á svæðinu og björgunarfólk þurfti að vera vel útbúið til að fóta sig þar. Var því kallað eftir sérstökum fjallabjörgunarbúnaði á vettvang.

UPPFÆRT: Erfiðar aðstæður voru í fjallinu og var því óskað eftir aðstoð frá þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ekki reyndist unnt að hífa manninn um borð í þyrluna vegna aðstæðna við fjallið. Því var búið um manninn og hann látinn síga áleiðis niður fjallshlíðina með fjallabjörgunarbúnaði. Hann var svo tekinn um borð í björgunarsveitarbíl sem ók honum að þyrlunni, sem síðan flutti manninn á sjúkrahús í Reykjavík. Aðgerðum á Ingólfsfjalli lauk rétt fyrir klukkan sjö.


Maðurinn var fluttur um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flaug með hann á Landspítalann. Ljósmynd/Ármann Ingi Sigurðsson

Fyrri greinGleðileg jól!
Næsta greinFærri einingar töpuðust