Slasaður göngumaður við Álftavatn

Lögreglumenn frá Hvolsvelli fengu tilkynningu um kl. 16 í gær að erlendur ferðamaður væri slasaður á hné á milli Álftavatns og Hrafntinnuskers, símtalið manninn slitnaði svo áður en fékkst upp úr honum nánari staðsetning.

Lögreglumenn, ásamt hálendisvakt Landsbjargar, sem stödd var í Álftavatni, og skálaverðir á svæðinu hófu eftirgrennslan eftir manninum. Eftir nokkra stund náðist símasamband við hann aftur og hafði hann þá náð að komast sjálfur í skála við Hrafntinnusker.

Meiðslin voru lítilsháttar og ætlaði hann að hvílast í skálanum og halda svo göngu.

Lögreglan nýtti góða veðrið í gær til þess að fara í hálendiseftirlit um Fjallabaksleið syðri. Ferðin sóttist vel, en því miður urðu lögreglumenn varir við nokkur hjólför utan vega á svæðinu, einnig sem mátti sjá á stöku stað hófaför eftir hestahópa.
Enn og aftur vill lögreglan á Hvolsvelli hvetja fólk til að sýna náttúrunni þá tilhlýðilegu virðingu sem hún á skilið. Búið er að gera vegi til að aka eftir og ef þeir, af einhverjum sökum, eru ekki færir hvetur lögreglan fólk til þess að fara aðrar leiðir eða snúa við.
Fyrri greinGuðjón sigraði á fyrstu mótaröðinni
Næsta greinUndirbúningur í fullum gangi