Slasaðist í vélsleðaslysi

Þyrla Landhelgisgæslunnar var send að Skálpanesi á Langjökli rétt fyrir klukkan sex til að sækja erlendan ferðamann, sem hafði slasast í vélsleðaóhappi.

Maðurinn, sem er á sjötugsaldri, var í hópi ferðamanna. Maðurinn ók sleða sínum út í urð, féll af honum og er talinn hafa slasast innvortis.

Sjúkrabíll var sendur á staðinn frá Selfossi en sjúkraflutningamenn mátu ástandið þannig að öruggast væri að senda þyrlu á vettvang.