Slasaðist alvarlega í bílveltu

Karlmaður á þrítugsaldri slasaðist alvarlega í bílveltu á Akureyjarvegi í Vestur-Landeyjum um þrjúleytið í nótt. Sex manns voru í bílnum sem hafnaði á hvolfi ofan í á.

Maðurinn var fluttur á Selfoss með sjúkrabíl og þaðan með þyrlu á Landspítalann í Fossvogi eftir að hafa verið bjargað úr bílnum af vegfarenda sem átti leið hjá.

Þrír aðrir voru fluttir á sjúkrahús og er líðan þeirra góð eftir atvikum að sögn læknis.

Lögreglan á Hvolsvelli rannsakar tildrög slyssins.