Slapp við illan leik eftir að hafa fallið niður í gjá

Gjáin hefur nú verið merkt en hún er full af þriggja til fjögurra gráðu köldu vatni. Ljósmynd/Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Gestur sem heimsótti þjóðgarðinn á Þingvöllum í gær lenti í lífsháska þegar hann gekk með bakka Öxarár þar sem áin rennur út í Þingvallavatn. Snjór sem huldi vatnsgjá gaf sig þegar hann gekk þar yfir og við það féll hann niður í hyldjúpa gjánna í helkalt vatnið.

Frá þessu er greint á heimasíðu Þjóðgarðsins.

Gjáin er mjög djúp og fór viðkomandi á bólakaf í vatn en lofthiti var um -18 gráður. Samferðarmaður hans og annar nálægur gestur þjóðgarðsins komu honum til bjargar og náðu honum upp úr gjánni, holdvotum við illan leik og komust þau í bíl þeirra sem lagt hafði verið spölkorn frá.

Fólkinu var mjög brugðið en komust til síns heima, köld og holdvot en létu þjóðgarðsstarfsfólk vita þegar þau voru á leið heim til að vekja athygli á þessu.

Snjó hefur kyngt niður í þjóðgarðinum undanfarinn mánuð og skefur snjó yfir gjár sem eru óteljandi í þjóðgarðinum og því geta slíkar hættur leynst víða. Í frétt þjóðgarðsins eru gestir eindregið hvattir til að fara alltaf með ítrustu gát um þjóðgarðinn og fara ekki út fyrir stíga og halda sig á sýnilegum slóðum.

Starfsfólk þjóðgarðsins mun skoða aðstæður við þessa gjá og meta aðstæður og hvernig verði brugðist frekar við.

Fyrri greinÞjórsá bólgin af ís á löngum kafla
Næsta greinHamar og Selfoss á sigurbraut – Hrunamenn töpuðu