Slapp ómeiddur úr bílveltu

Ökumaður fólksbifreiðar slapp ómeiddur eftir bílveltu á Eyrarbakkavegi við Stekka nú síðdegis.

Bíllinn dró á eftir sér kerru hlaðna timbri og reyndist farmurinn of þungur fyrir hann. Kerran fór að rása á veginum og tók völdin af bílstjóranum. Bifreiðin var á suðurleið en fór yfir á rangan vegarhelming og endaði á toppnum utan vegar.

Ökumaðurinn var einn á ferð og kenndi hann sér ekki meins eftir óhappið. Bifreiðin er nokkuð skemmd.