Slapp með rifbeinsbrot eftir veltu niður Reynisfjall

Lögreglumenn á Suðurlandi voru kallaðir til vegna átján umferðaróhappa og slysa í liðinni viku. Alvarlegast var bílvelta í Reynisfjalli þar sem fjórir bandarískir ferðamenn voru á leið upp fjallið í ársgömlum Pajero jeppa.

Á miðri leið snerist þeim hugur og ökumaðurinn bjó sig undir að snúa við. Það gekk brösulega og leist farþegum ekki meira en svo á að þeir yfirgáfu jeppann á meðan ökumaðurinn lyki við að snúa við. Ekki tókst betur til en svo að bifreiðin fór aftur á bak útaf veginum og valt margar veltur niður hlíðina og stöðvaðist á hvolfi ofan í skurði. Ökumaðurinn kastaðist út úr bílnum á miðri leið.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð til og flutti manninn á slysadeild Landspítala. Við skoðun þar kom í ljós að maðurinn var með eitt brotið rifbein sem verður að teljast farsællega vel sloppið miðað við aðstæður.

Fyrri greinSinueldur í Hellisskógi
Næsta greinHeitavatnslaust í Árborg á þriðjudag