Slapp lítið meidd úr bílveltu

Betur fór en á horfðist þegar fólksbíll valt út af Suðurlandsvegi í Kömbum á tíunda tímanum í kvöld. Ung kona sem ók bílnum slapp með minniháttar meiðsli.

Bíllinn var á leið upp Kambana þegar ökumaðurinn missti stjórn á bílnum í vinstri beygju og fór framaf veginum hægra megin og valt.

Lögregla og sjúkralið voru kölluð á vettvang ásamt slökkviliðsmönnum á klippubíl úr Hveragerði þar sem ökumaðurinn var fastur í bílnum. Hún komst þó að lokum út af sjálfsdáðum og voru meiðsli hennar minni en í upphafi var talið.

Ökumaðurinn var fluttur til læknisskoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Bifreiðin er mikið skemmd.

Fyrri greinÞjófurinn kominn bak við lás og slá
Næsta greinBryggjudagar í Þorlákshöfn