Selfyssingurinn Gunnar Kári Oddsson var staddur á eyjunni Koh Lanta við vesturströnd Thailands þegar stóri jarðskjálftinn í Indlandshafi reið yfir í morgun.
Skjálftinn varð kl. 8:38 að íslenskum tíma eða 14:38 að staðartíma við eyjuna Súmötru í Indónesíu. Flóðbylgjuviðvörun var gefin út á stóru svæði við Indlandshafið.
„Ég var í bát þegar skjálftinn reið yfir þannig að ég fann hann nú ekki. Síðan fóru sírenur í gang sem vöruðu við flóðbylgju. Það var dálítið panikk fyrst en það er lítið af túristum hérna á Koh Lanta og þeir innfæddu vissu hvernig á að bregðast við þannig að þetta var bara einfalt, og eiginlega spennandi ævintýri,“ sagði Gunnar Kári í samtali við sunnlenska.is.
„Við fórum upp í fjallshlíðarnar og ég endaði á því að slaka bara á hjá einhverjum milljónamæringi sem á villu þarna uppi í fjöllunum með útsýni yfir alla eyjuna. Leonardo Di Caprio á einmitt næstu villu við hliðina á þannig að þetta var bara mjög fínt,“ segir Gunnar léttur í bragði.
„En já, þetta gekk bara vel og var býsna einfalt. Við fréttum að það hefði verið mikil ringulreið á Phuket, þar sem voru miklar hamfarir í flóðbylgju árið 2004. En hérna á Koh Lanta var þetta lítið mál.“
Gunnar Kári er búinn að vera einn á ferð í heimsreisu frá því í byrjun mars og stefnir á að koma heim í byrjun júní. Hann hefur m.a. ferðast til Egyptalands og er búinn að vera í Thailandi í tvær vikur. Hann stefnir á að koma við í Ástralíu og Nýja Sjálandi, Fiji og Hawaii áður en hann kemur aftur heim.
Gunnar Kári glímir við tígriskettling í Kanchanaburi fyrir utan Bangkok. sunnlenska.is/GKO