„Sláandi munur“

Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að láta vinna frekari upplýsingar um þann lögfræðikostnað sem fallið hefur á sveitarfélagið í framhaldi af fyrirspurn Eggerts Vals Guðmundssonar, bæjarfulltrúa S-lista.

Að sögn Eggerts var samþykkt að fela framkvæmdastjóra Árborgar að afla upplýsinga til samanburðar frá öðrum sveitarfélögum. Eggert sagði að það væri eðlilegt að láta samanburðinn ná til lengri tíma en fjögurra mánaða og um það væri sátt í bæjarráði.

Ástæða fyrirspurnar Eggerts er sú að hann vill fá svör við hversu mikill kostnaðarauki hafi orðið við það að leggja niður starf bæjarritara.

Aðspurður sagði Eggert að hann sæi mikinn mun á þeim tölum sem nú liggja fyrir. „Já, munurinn er sláandi. Það er veruleg hækkun fyrstu fjóra mánuði ársins,“ sagði Eggert í samtali við Sunnlenska.