Slæm veðurspá á sunnudaginn

Veðurstofan vill vekja sérstaka athygli á slæmri veðurspá fyrir sunnudag, suðaustan og austan 15 – 25 m/s. Mjög snarpar vindhviður verða við fjöll.

Talsverð rigning verður víða um land og mikil úrkoma suðaustantil. Heldur hægari vindur undir kvöld. Hiti 10 – 16 stig. Um hlýtt loft er að ræða og mun öll úrkoman falla sem rigning einnig á hæstu jöklum.

Þar sem þetta er fyrsta óveðrið eftir sumarið, er fólki bent á að festa niður hluti sem geta fokið. Enn er nokkur óvissa hversu slæmt veðrið verður, en eftir því sem nær líður að sunnudeginum minnar óvissan í veðurspánni. Það má þó þegar gera ráð fyrir sérlega vinda- og vætusömum sunnudegi.

Hitabeltislægðin Cristobal olli tjóni á eyjunum við Karíbahaf um helgina. Á þriðjudaginn náði Cristobal styrk fyrsta stigs fellibyls. Á hádegi í dag var Cristobal staddur um 700 km austur af austurstönd Bandaríkjanna og er á leið norðaustur. Vanalega minnka fellibylir þegar þeir fara til norðurs yfir kaldari sjó. Spár gera ráð fyrir að þegar Cristobaal nálgist Nýfundnaland mæti hann köldu lofti sem streymir til suðausturs af Labradorhafi og það ásamt samspili við háloftavindröst viðheldur styrk hans að nokkru leyti. Það má því segja að lægðin sem veldur óveðrinu á sunnudag séu leifarnar af fellibylnum Cristobal.

Fyrri greinHitað upp í Intersport
Næsta greinRafræn leikskrá fyrir bikarúrslitaleikinn