Slæm loftgæði fyrir viðkvæma á tímabili

Brennisteinsdíoxíð-mengun frá eldgosinu í Holuhrauni hefur verið viðvarandi á Suðurlandi í allan dag. Hámarki náði hún um kl. 18 þegar mælirinn á Leirubakka í Landsveit fór í um 900 µg/m3.

Þegar mæligildin fara yfir 600 µg/m3 (míkrógrömm á rúmmetra) eru einkenni frá öndunarfærum líkleg hjá einstaklingum með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma og ættu þeir að forðast áreynslu utandyra. Þessi mengunarstyrkur veldur hins vegar litlum vandamálum hjá heilbrigðum. Þetta ástand var viðvarandi í tæpa klukkustund á milli kl. 17:30 og 18:30 en síðan féllu gildin hratt eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

Á mælistöðinni í Hveragerði fór SO2 mengunin mest í rúmlega 500 µg/m3 í kringum hádegi.

Reikna má með að íbúar frá Reykjanesi og að Hvolsvelli og jafnvel austar verði varir við mengun í kvöld og á morgun. Hægt er að fylgjast með mæli á Leirubakka í Landssveit hér og mælinum í Hveragerði hér.

Á vef Veðurstofunnar má sjá spár um dreifingu og hér að neðan er spákort morgundagsins. Þó að um tilraunaverkefni sé að ræða hefur það reynst nokkuð nákvæmt í að spá hvernig mengun dreifist.


Línurit úr loftgæðamælinum á Leirubakka í dag. Mynd: Umhverfisstofnun


Gasmengunarspá fyrir fimmtudaginn 9. október. Mynd: Veðurstofan

Fyrri greinÁningaraðstaða við Langasjó
Næsta greinRendon með þrefalda tvennu í tapleik