Slæm loftgæði í Hveragerði – og væntanlega víðar

Loftgæði í Hveragerði hafa verið slæm fyrir viðkvæma síðdegis í dag og má reikna með að ástandið sé verra austar á Suðurlandsundirlendinu miðað við skyggni.

Kl. 17 var brennisteinsdíoxíðmengunin rúmlega 1.600 µg/m3 á mælinum í Óskalandi í Hveragerði og 1.473 µg/m3 kl. 18. Hæg austanátt er núna á Suðurlandi og eykur það líkurnar á því að styrkur brennisteinsdíoxíðs eigi eftir að hækka. Búast má við mengun á svæðinu á meðan þessar veðuraðstæður vara.

Þegar mengun fer uppfyrir 600 µg/m3 eru loftgæði slæm fyrir viðkvæma. Við þessar aðstæður eru einkenni frá öndunarfærum líkleg hjá einstaklingum með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma en lítil vandamál hjá heilbrigðum.

Einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma ættu að forðast áreynslu utandyra. Áhrif á heilsufar heilbrigðra einstaklinga eru ólíkleg en gagnlegt er að draga úr áreynslu utandyra.Fólk með undirliggjandi öndunarfærasjúkdóma er hvatt til þess að fylgjast vel með mengunarmælum.

Mengunin við Hellisheiðarvirkjun fór í 1.500 µg/m3 á sjötta tímanum í dag og mengunin fóru uppfyrir 600 µg/m3 í skamma stund við Búrfellsvirkjun í Skeiða- og Gnúpverjahreppi milli kl. 16 og 17 í dag.

Ekki má finna upplýsingar á netinu úr öðrum mælum á Suðurlandi.

Samkvæmt veðurspá á að bæta í vind á morgun en áfram verða austlægar áttir og því gæti áhrifa mengunarinnar gætt næstu daga.

Hér er hægt er að fylgjast með loftgæðamælum.

UPPFÆRT KL. 19:03

Fyrri greinGöngustígur að Svartafossi endurbættur
Næsta greinFyrsti sigur Hamars