Skutu sex dýr í Háfshverfinu

„Við náðum fimm, en ég tel mig hafa náð því sjötta líka, hann hentist a.m.k. um eftir að ég skaut hann, svo hann liggur einhversstaðar dauður.“

Þetta segir Óskar Ólafsson á Bjóluhjáleigu en hann og Ármann bróðir hans voru á refaveiðum á svokallaðri Halabót í landi Hala nærri Kálfalæk fyrir skömmu.

Í þessari ferð náðu þeir kvendýri og fjórum yrðlingum, og Óskar telur að karldýrið hafi komið sér einhverstaðar niður í holu. Hann segir skolla hafa í auknum mæli komið sér fyrir á þessu svæði á undanförnum tíu árum eða svo, þar sé nægilegt æti, bæði endur og mófugl.

„Það er hinsvegar nokkuð erfitt að finna tófur þarna, maður kemst ekki auðveldlega um þar sem þarna er mikið af skurðum, svo hún getur leynst víða,“ segir Óskar. Þeir bræður hafa náð níu dýrum í Djúpárhreppnum síðan um áramót. Þá eru þeir búnir að skjóta talsvert inni á afrétti Áshreppinga.

Í sumar munu þeir svo fara í Holtamannaafrétt, en Óskar segir enn vera mikinn snjó innfrá og ófærð hamli ferð. Í grenjum á afréttinum hafa þeir fundið gæsaunga í tugatali í grenjum, jafnvel óétna, svo þar er líka mikið æti fyrir tófuna. „Ég hef þó ekki orðið var við fjölgun þar,“ segir Óskar.