Skúli og Bær hf fengu umhverfisviðurkenningar

Viðkenning Umhverfis og náttúruverndar Skaftárhrepps hefur verið með misjöfnu móti undanfarin ár. Ýmist eru það einstaklingar, fyrirtæki eða áhugamannafélög sem hafa hlotið viðurkenningu.

Að þessu sinni voru veittar tvær viðurkenningar, önnur til einstaklings og hin til fyrirtækis.

Einstaklingsviðurkenninguna hlaut Skúli Jónsson frá Þykkvabæ. Hann hefur með ótrúlegri eljusemi og mikilli færni gert upp gamla steinsteypta íbúðarhúsið í Þykkvabæ II og er það einstaklega vel heppnað og glæsilega gert. Húsið var byggt 1917, eitt af fyrstu steinsteyptu íbúðarhúsum í Skaftárhreppi og hafði það verið notað sem geymsla í mörg ár áður en Skúli hófst handa við að gera húsið upp. Skúli hefur ekki aðeins endurgert íbúðarhúsið heldur hefur hann einnig hafist handa við að taka sambyggð útihús í gegn sem og allt umhverfis húsanna. Ber húsið og umhverfi þess vott um útsjónarsemi og vandvirkni, en verklag Skúla má víða sjá í sveitarfélaginu.

Fyrirtækjaviðurkenninguna hlaut Bær hf. Forsaga þeirrar viðurkenningar er að Umhverfis- og náttúruverndarnefnd barst svohljóðandi bréf: „Ég vil benda á fyrirtæki hér á Klaustri sem á skilið að fá viðurkenningu Umhverfis- og náttúrverndarnefndar Skaftárhrepps 2016. Smekkvísi, snyrtimennska og natni við allt umhverfi einkennir fyrirtækið, alltaf eitthvað verið að breyta og bæta og engin stöðnun í gangi. Fyrirtæki þetta er Icelandair Hótel Kaustur“. Vissulega olli þessi ábending því að einn nefndarmaður taldist vanhæfur en Sveinn Jensson, hótelstjóri Icelandair Hótel á Klaustri, situr í umhverfisnefnd. Þeir nefndarmenn sem eftir sátu gátu hins vegar ekki annað en verið sammála bréfritara og féll því viðurkenningin til Bæjar hf. sem á og rekur það húsnæði sem hýsir Icelandair hótel Klaustur.