Skuldir lækka í fyrsta sinn

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir 2011 gerir ráð fyrir umtalsverðum bata á afkomu þess. Áætlunin var lögð fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag.

Í fréttatilkynningu frá Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, segir að gert sé ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðu verði jákvæð um 54 milljónir. Er þetta jákvæður viðsnúningur um 301 milljón króna miðað við áætlun fyrir 2010 og upp á 503 milljónir frá árinu 2009. Þessi árangur er að langmestu leyti vegna hagræðingar í rekstri. Launakostnaður sem hlutfall af tekjum lækkar úr 54,1% fyrir síðasta ár og verður 46,7% árið 2011.

Skuldir sveitarfélagsins eru yfir viðmiðunarmörkum Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og standa um næstu áramót í rúmlega 9,3 milljörðum króna. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að skuldir verði greiddar niður um 335 milljónir króna og verði tæpir 9 milljarðar í árslok 2011. Er það í fyrsta sinn frá stofnun Sveitarfélagsins Árborgar árið 1998 að skuldir þess lækka milli ára.

Fasteignaskattur lækkar að krónutölu
Umtalsverð hagræðing á sér stað í rekstri Árborgar og verður þeirri vinnu haldið áfram. Gjaldskrár eru leiðréttar með tilliti til tilkostnaðar og verðlagshækkana. Leikskólagjöld hækka um 5% og eru þau nú um 1/5
raunkostnaðar. Vatnsgjald og fráveita er óbreytt krónutala. Hitaveitugjald er áfram með því lægsta sem þekkist á Íslandi. Fasteignaskattur lækkar um 10% á heimili þar sem álagsprósentan verður óbreytt þrátt fyrir lækkandi
fasteignamat. Sama á við um lóðarleigu sem einnig lækkar um 10%.

Einfaldara skipurit
Loks liggur til samþykktar nýtt og einfaldað skipurit fyrir sveitarfélagið þar sem sviðum og deildum er fækkað. Þessi breyting hefur að hluta þegar komið til framkvæmda en hún mun skila verulegri hagræðingu með lækkun
stjórnunarkostnaðar og aukinni skilvirkni fyrir íbúana.

Fyrri grein„Mest spennandi að koma á Hvolsvöll“
Næsta greinSumarlandið selst best