Skuldir í lágmarki og rekstrarafgangur eykst

Verulegur afgangur varð af rekstri Flóahrepps á síðasta ári og jókst handbært fé hreppsins um liðlega 70 milljónir á milli ára og stendur nú í rúmum 212 milljónum króna.

Til handbærs fjár telst bæði sjóður og bankainnistæður. Rekstur sveitarsjóðs var jákvæður um 57 milljónir króna auk þess sem hreppurinn hafði vaxtartekjur uppá 12,6 milljónir.

Heildartekjur A hluta námu 474,5 milljónum króna, sem var talsvert umfram áætlun. Jókst rekstrarafgangur um 30 milljónir króna á milli ára. Skuldir sveitarinnar eru afar lágar, þannig eru skuldir við lánastofnanir aðeins rúmar 20 milljónir króna og skammtímaskuldir námu við árslok um 52 milljónum króna.

Að sögn Margrétar Sigurðardóttur, sveitarstjóra Flóahrepps liggur fyrir fjárfestingaráætlun til næstu ára, þar meðtalið fjárfesting sem verður í leikskólanum. Þarna er um að ræða um fimmtíu milljónir króna, en ekki er ljóst hvort það verði allt notað á þessu ári að sögn Margrétar.

Fyrri greinSkoðar hvernig fólk fer í sund
Næsta greinTónleikum á Selfossi aflýst