Skrúðgarðyrkjumeistarinn sem endaði í leiktækjunum

Hjónin Jóhann Helgi Hlöðversson og Margrét Ormsdóttir í Vatnsholti eru eigendur Jóhann Helgi og co. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Jóhann Helgi & Co er sunnlenskt fyrirtæki í Vatnsholti í Flóahreppi sem sérhæfir sig í heildarlausnum á leik- og íþróttasvæðum. Þau hafa ekki farið varhluta af jákvæðum áhrifum COVID.

„Ég útskrifaðist sem skrúðgarðyrkjumeistari árið 1990 og stofnaði þá fyrirtækið Jóhann Helgi & Co. Ég byrjaði þá strax að bjóða í verk á vegum borgarinnar og þá mest endurnýjun skóla og leikskólalóða. Í þessum verkum þurfti að útvega allt sem til verksins þurfti, eins og til dæmis útileiktæki, girðingar, gúmmíhellur og fleira. Það var frekar lítið úrval af slíku hér á landi og ákvað ég þá að heimsækja sendiráð Norðurlandanna á Íslandi og bað þá um að hjálpa mér að finna góða framleiðendur á útileiktækjum,“ segir Jóhann Helgi Hlöðversson í samtali við sunnlenska.is.

Leiksvæði með tækjum frá Jóhanni Helga og co má finna víða á Suðurlandi, meðal annars þetta í Reykholti í Biskupstungum.

Góðar viðtökur frá byrjun
Sumarið 1994 byrjaði Jóhann svo að flytja inn gæða útileiktækin frá Lappset í Finnlandi. „Viðtökurnar hafa alltaf verið góðar enda höfum við allt frá byrjun lagt áherslu á að bjóða einungis gæða vörur sem framleiddar eru í Evrópu og uppfylla samevrópska öryggisstaðalinn EN1176.“

„Vöruúrvalið hefur breyst mikið frá því við byrjuðum með Lappset umboðið. Í dag flytjum við inn girðingar, gervigras, gúmmíhellur, tartan, endurunnið plast, hjólabrettaparka, hjólabrautir, reiðhjólaskýli og standa, bekki og ruslafötur og svo mætti lengi telja. Við tökum einnig að okkur gerð leiksvæða og erum með gröfur og vörubíla ásamt hörkuduglegu starfsfólki,“ segir Jóhann.

Að sögn Jóhanns eru borgin og bæjarfélögin þeirra stærsti kúnnahópur. „Því næst eru það sumarbústaðaeigendur og fjölbýlishús. Einkaaðilar hafa aðeins tekið við sér í Covid ástandinu og fjárfest í vönduðum búnaði í garðinn.“

Æfingavöllur eldri borgara við Grænumörk á Selfossi er frá Jóhanni Helga og co með tækjum frá Lappset.

Myndi vilja sjá fleiri boltaveggi
„Það skiptir miklu máli að hafa gæði tækjanna í huga þegar velja á leiktæki. Öryggi, leikgildi, ending, ábyrgð, varahlutir og þjónusta skipta miklu máli við val á leiktækjum. Lappset leiktækjalínan eins og hún leggur sig er vinsælust en einnig hafa náttúruleg tæki framleidd úr Robine viðnum verið vinsæl á síðustu árum. Þar erum við að tala um þýsku framleiðendurna Sik Holz og Eibe.“

Aðspurður hvort það sé eitthvað leiktæki sem Jóhann myndi vilja sjá fleirum leiksvæðum er auðsvarað. „Já, það er eitt leiktæki í algjöru uppáhaldi hjá okkur sem við myndum gjarnan vilja sjá við skólana og íþróttamiðstöðvarnar. Það er boltaveggur frá Yalp.nl. Þessi veggur er tölvustýrður með með mismunandi leikjum þar sem veggurinn mælir bæði skotstyrk og hraða ásamt hittni. Hægt er að keppa beint við aðra notendur um allan heim. Við höfum sett upp bæði Memo og Sauna frá Yalp, sem einnig eru með gervigreind, í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum,“ segir Jóhann.

Boltaveggur í Dokhavenpark í Rotterdam. Ljósmynd/Arie Kievit

Aukinn áhugi á vönduðum útileiktækjum
„Við höfum haft í nógu að snúast á tímum covid enda hafa ríkið og bæjarfélögin mörg hver sett auka fjárveitingar í uppbyggingu leiksvæða. Það hefur komið sér sérlega vel fyrir okkur þar sem við rekum einnig sveitahótelið Vatnsholt í Flóahreppi, en eins og flestir vita þá hefur ekki verið mikið um ferðamenn á þessum tímum. Við höfum einnig orðið vör við aukningu almennings á vönduðum útileiktækjum og búnaði í einkagarða, sumarbústaðalóðum og tjaldsvæðum,“ segir Jóhann Helgi að lokum.

Fyrri greinSkeiðsumarið hefst á morgun
Næsta greinFræ sem verða blóm