Skrifuðu undir málefnasamning í Lystigarðinum

Ljósmynd/Aðsend

Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar skrifuðu í kvöld undir málefnasamning um meirihlutasamstarf á komandi kjörtímabili í Lystigarðinum Fossflöt í Hveragerði.

Í málefnasamningnum segir að framboðin munu á kjörtímabilinu fjárfesta í innviðum sveitarfélagsins samhliða íbúafjölgun. Ábyrgur rekstur verði í forgangi og lögð áhersla á opna og gagnsæja stjórnsýslu ásamt því að veita íbúum framúrskarandi þjónustu.

Megináherslur málefnasamningsins eru tilgreindar í helstu málaflokkum og skipta þær tugum. Nýi meirihlutinn hyggst auglýsa starf bæjarstjóra og ráða í það á faglegum forsendum.

Framboðin munu skipta með sér verkum á kjörtímabilinu þannig að forseti bæjarstjórnar kemur úr röðum Framsóknar fyrsta og þriðja árið og Okkar Hveragerði annað og fjórða árið. Á móti verður sami háttur hafður á varðandi formann bæjarráðs, þannig að hann kemur úr röðum Okkar Hveragerði fyrsta árið.

Framsókn mun sinna formennsku í menningar-, íþrótta- og frístundanefnd, skipulags- og mannvirkjanefnd og kjörstjórn Hveragerðisbæjar. Okkar Hveragerði mun sinna formennsku í fræðslunefnd og umhverfisnefnd.

Í kosningunum þann 14. maí síðastliðinn fengu Okkar Hveragerði og Framsókn samtals fimm bæjarfulltrúa af sjö en Sjálfstæðisflokkurinn tvo. Áður hafði Sjálfstæðisflokkurinn verið með hreinan meirihluta í Hveragerði undanfarin sextán ár.

Fyrri greinÞökkuðu fyrir björgunina með kaffispjalli
Næsta greinSögulegur sigur Uppsveita – KFR fékk skell