Skrifuðu meira en 150 smásögur

Á hverju ári, í tilefni af evrópska tungumáladeginum þann 26. september, stendur Félag enskukennara á Íslandi fyrir smásagnakeppni á ensku á meðal grunn- og framhaldsskólanemenda landsins.

Undanfarin þrjú ár hefur Grunnskólinn í Hveragerði tekið þátt og í ár voru það nemendur í 4. – 8. bekk sem tóku þátt í tveimur flokkum: 6. bekkur og yngri og 7. – 8. bekkur. Nemendur hafa sýnt keppninni sífellt meiri áhuga og lagt meiri metnað í sínar smásögur. Í fyrra sendu Hvergerðingar níu smásögur inn í landskeppnina og unnu fimm þeirra til verðlauna. Að þessu sinni var hins vegar úr vöndu að ráða því nú má einungis senda þrjár smásögur í landskeppnina og krakkarnir skrifuðu yfir 150 sögur.

Í síðustu viku var haldin hátíð á sal með nemendum í 4. – 8. bekk. Þar tilkynnti Fanney skólastjóri að valdar hefðu verið 30 smásögur til að fara á sýningu á bæjarbókasafninu í Sunnumörk í desember. Einnig veitti hún bókaverðlaun fyrir þær þrjár sögur sem þóttu skara fram úr í hvorum flokki fyrir sig og tilkynnti loks hvaða smásögur yrðu sendar áfram í landskeppnina.

Bókaverðlaun í flokknum 6. bekkur og yngri fengu: Kristófer Kató Kristófersson í 4. bekk, Helga María Janusdóttir í 5. bekk og Sólveig Lilja Guðjónsdóttir í 6. bekk. Það var svo sagan hennar Sólveigar sem valin var í landskeppnina.

Bókaverðlaun í flokknum 7. – 8. bekkur fengu: Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir í 7. bekk, Signý Ólöf Stefánsdóttir í 7. bekk og Gígja Marín Þorsteinsdóttir í 8. bekk. Það voru svo sögurnar þeirra Signýjar og Gígju sem valdar voru í landskeppnina.

Fyrri greinVilja bætur vegna framkvæmda á Austurveginum
Næsta greinTelur núverandi nafn heppilegustu nafngiftina