Skrifuðu 250 smásögur

Á hverju ári, í tilefni af Evrópska tungumáladeginum þann 26. september, stendur Félag enskukennara á Íslandi fyrir smásagnakeppni á ensku á meðal grunn- og framhaldsskóla landsins.

Undanfarin ár hefur Grunnskólinn í Hveragerði tekið þátt og í ár voru það nemendur í 3. – 10. bekk sem tóku þátt í þremur flokkum: 6. bekkur og yngri, 7. – 8. bekkur og 9. – 10. bekkur.

Í fyrra tók skólinn þátt í tveimur flokkum í landskeppninni og unnu nemendur til verðlauna í þeim báðum. Nemendur sýna keppninni sífellt meiri áhuga og leggja aukinn metnað í smásögurnar og í ár skrifuðu nemendurnir í Hveragerði yfir 250 smásögur.

Föstudaginn 2. desember kynnti Sævar Þór Helgason skólastjóri úrslit í innanskólakeppninni. Valdar voru fimmtíu smásögur til að fara á sýningu á bæjarbókasafninu í Sunnumörk í desember, veitt voru bókaverðlaun fyrir þær þrjár sögur sem þóttu skara fram úr í hverjum flokki fyrir sig og loks tilkynnti Sævar hvaða smásögur yrðu sendar áfram í landskeppnina.

Bókaverðlaun í flokknum 6. bekkur og yngri fengu: Mikael Rúnar og Freydís Ósk í 5. bekk og Helga María 6. bekk. Það var svo sagan hans Mikaels Rúnars sem valin var í landskeppnina.

Bókaverðlaun í flokknum 7. – 8. bekkur fengu: Regína Lind 7. bekk og Sigríður Kristín og Erla Rut í 8. bekk. Það var svo sagan hennar Sigríðar Kristínar sem valin var í landskeppnina.

Bókaverðlaun í flokknum 9. – 10. bekkur fengu: Estella Nótt og Gígja Marín í 9. bekk og Guðrún Clara í 10. bekk. Það var svo sagan hennar Guðrúnar Clöru sem valin var í landskeppnina.