Skrifstofa Skaftárhrepps og Kirkjubæjarstofa undir sama þaki

Ljósmynd/Skaftárhreppur

Kirkjubæjarstofa, þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri, hefur flutt starfsemina úr gamla gistihúsinu uppi á hlaðinu við Systrafoss á efri gang heimavistarálmu Kirkjubæjarskóla.

Skrifstofur Skaftárhrepps flytja í nýja húsnæðið á sama tíma en hreppsskrifstofan hefur verið í bráðabirgðahúsnæði á efri hæð Kirkjuhvols sem er félagsheimilið á Kirkjubæjarklaustri.

Hæðin í Kirkjubæjarskóla hefur verið gerð upp en þar voru íbúð og herbergi fyrir nemendur sem voru í heimavist til ársins 1992 að heimavistin var lögð niður og öll börn keyrð heim daglega.

Kirkjubæjarstofa er þekkingarsetur þar sem unnið er að ýmsum verkefnum, en setrið fékk Menningarverðlaun Suðurlands 2019 fyrir framlag til metnaðarfullra menningarverkefna.

Starfsemi Kirkjubæjarstofa hefur frá stofnun hennar veriðí gamla gistihúsinu á hlaðinu við Systrafoss. Gamla gistihúsið var selt síðastliðið vor og voru kaupendur félagið Burstasteinn ehf. Enn hefur ekki verið ákveðið hvaða starfsemi verður í húsinu.

Félagið Eldvilji ehf var eigandi að gamla gistihúsinu og mun einnig verða eigandi að húsnæði Kirkjubæjastofu í Kirkjubæjarskóla. Skaftárhreppur leggur til húsið og Kirkjubæjarstofa leggur til 67,5 milljón króna styrkveitingu frá Sóknaráætlun Suðurlands til að endurnýja húsnæðið. Verkið var boðið út og fékk RR-Tréverk ehf á Kirkjubæjarklaustri verkið samkvæmt tilboði sem hljóðaði upp á tæplega 61 milljón króna. Áætlaður eignarhlutur Skaftárhrepps í Eldvilja ehf verður 47,5% og Kirkjubæjarstofu 52,5%

Í húsnæði Kirkjubæjarstofu hafa nokkrar stofnanir starfsstöð og flytja þær allar í nýtt húsnæði. Það eru Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins, Bændabókhaldið, Fræðslunet Suðurlands-símenntun, Náttúrustofa Suðausturlands, atvinnu- og kynningarfulltrúar Skaftárhrepps og Vatnajökulsþjóðgarður.

Fyrri greinHeimamenn buðu lægst í hringtorg
Næsta greinStóru málin í Suðurkjördæmi