Skrifað undir viljayfirlýsingu um græna iðngarða

Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu og Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri. Ljósmynd/Aðsend

Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu og Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á grænum iðngörðum á Strönd á Rangárvöllum.

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti, sagði í samtali við sunnlenska.is að hér sé um að ræða virkilega spennandi verkefni, sem geti haft veruleg jákvæð áhrif á atvinnustig í sveitarfélaginu, gangi áformin eftir.

Orkídea er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Markmið verkefnisins er að stuðla að aukinni og sjálfbærri matvælaframleiðslu og vinnslu á Suðurlandi með bættri nýtingu endurnýjanlegra auðlinda svæðisins. Í verkefninu verður stutt við uppbyggingu matvælaframleiðu og líftækni á svæðinu og nýjum fyrirtækjum gert kleift að byggja upp aukna framleiðslu.

Orkídea og Rangárþing ytra munu vinna sameiginlega að kortlagningu á heppilegri atvinnustarfsemi og viðskiptatækifærum sem gætu átt heima innan Græns iðngarðs. Báðir aðilar munu hafa samvinnu um að útvega fjármagn til stofnunar garðsins með umsóknarvinnu eða samtölum við opinbera aðila og fjárfesta.

Fyrri greinSif semur til tveggja ára
Næsta greinMyndlistarnemar Fsu sýna í Listagjánni