Skrifað undir samning um brúarsmíði við Hverfisfljót og Núpsvötn

Núverandi brú yfir Núpsvötn. sunnlenska.is/Benedikt Hrafn Guðmundsson

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, skrifuðu í gær undir verksamning vegna byggingar brúa yfir Hverfisfljót og Núpsvötn.

ÞG Verk áttu lægsta tilboð í verkið eða 1.425 milljónir króna sem var nánast sama upphæð og áætlaður verktakakostnaður. Verkinu skal að fullu lokið um miðjan nóvember á næsta ári. Framkvæmdir munu hefjast strax í næstu eða þarnæstu viku.

Báðar brýrnar leysa af hólmi einbreiðar brýr og mun því slíkum fækka um tvær á hringveginum sunnan Vatnajökuls. Tilgangurinn með byggingunni einmitt að fækka einbreiðum brúm og auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum en í báðum tilvikum mun umferðaröryggi aukast til muna.

Byggð verður ný 74 m löng og tvíbreið brú yfir Hverfisfljót, um 20 m neðan núverandi brúa. Brúin verður verður samverkandi stálbitabrú með steyptu gólfi í þremur höfum. Einnig verður byggður nýr áningarstaður við Hverfisfljót í stað núverandi áningarstaðar sem hverfur undir nýjan veg.

Brúin yfir Núpsvötn verður 138 m löng tvíbreið brú, ofan núverandi brúarstæðis. Brúin verður eftirspennt steinsteypt brú með steyptu gólfi í fimm höfum. Einnig verður byggður nýr áningarstaður vestan nýju brúarinnar.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, skrifuðu undir verksamninginn. Ljósmynd/Vegagerðin

Frétt Vegagerðarinnar

Fyrri greinLeitað við Ölfusá eftir að bakpoki fannst á bakkanum
Næsta greinBlómstrandi dögum aflýst