Skrifað undir samning um breikkun Suðurlandsvegar

Undirritunin fór fram með tveggja metra millibili fyrir utan höfuðstöðvar Vegagerðarinnar í Borgartúni. Ljósmynd/Vegagerðin

Í dag var skrifað undir verksamning milli Vegagerðarinnar og Íslenskra aðalverktaka hf. um annan áfanga Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss.

Samningurinn hljóðar upp á ríflega fimm milljarða króna og á verkinu að vera lokið í síðasta lagi 29. september 2023.

Um er að ræða nýbyggingu Þjóðvegar 1 að hluta og breikkun og endurgerð að hluta, alls um 7,1 km. Þetta er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss en ÍAV var einnig með fyrsta áfanga verksins og þekkir því vel til aðstæðna.

Með framkvæmdinni verður jafnframt til nýr samfelldur hliðarvegur, Ölfusvegur, með sérstökum hjólareinum frá Hveragerði að Biskupstungnabraut.

Gerð verða ný vegamót við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri ásamt nýju hringtorgi við Biskupstungnabraut og byggðar þrjár nýjar brýr á Gljúfurholtsá og Bakkárholtsá, undirgöng fyrir bíla við Þórustaði og við Kotströnd þar sem Ölfusvegur fer undir nýjan hringveg.

Fyrri greinFéll um þrjá metra ofan af húsþaki
Næsta greinSunnlenskar raddir syngja í fjarbúð