Skrifað undir viðbót við Vaxtarsamning

Á dögunum fékk Atvinnuþróunarfélag Suðurlands Oddnýju G. Harðardóttur iðnaðarráðherra í heimsókn á svæðið.

Í ferðinni skrifaði ráðherra undir viðbótarsamning við Vaxtarsamning Suðurlands og fékk kynningu á áhugaverðum samstarfs- og klasaverkefnum sem hlotið hafa styrk úr Vaxtarsamningnum.

Ráðherra ásamt föruneyti var kynnt fyrir nokkrum fyrirtækum í ferðinni og lá leiðin fyrst í Feng í Hveragerði þar sem unnið er að því að endurnýta timbur meðal annars til undirburðar í dýrastíur. Við endurvinnsluna er hrein orka, jarðgufa notuð við framleiðsluna. Þá er verið að búa til vöru úr endurvinnanlegu hráefni, með því að nýta timbur sem áður var að mestu urðað í jörðu eða notað til brennslu í stóriðju.

Næst lá leiðin í Matarsmiðjuna á Flúðum sem rekin er af Matís í samstarfi við sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu, Atvinnuþróunarfélagið og Háskólafélag Suðurlands. Vilberg Tryggvason kynnti starfsemina, búnað hennar og hvaða verkefnum er unnið að.

Að lokum var komið við hjá þeim Knúti Ármann og Helenu Hermundsdóttur í Friðheimum í Reykholti en þar sinna menn jöfnum höndum ylrækt á tómötum, hestasýningum og ferðaþjónustu. Í lokin var boðið upp á gómsæta tómatsúpu úr glænýrri uppskeru.

Sveinn Sæland garðyrkjubóndi í Espiflöt og formaður Sambands garðyrkjubænda fór vel yfir stöðu mála hjá garðyrkjubændum í stuttri framsögu. Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu sagði frá áhugaverðum verkefnum á hennar starfssvæði og að lokum fluttu tveir ungir upprenandi gítarsnillingar tvö lög fyrir gesti.

Hópurinn fékk allstaðar góðar og hlýjar móttökur og fannst ánægjulegt að sjá þau verkefni og fyrirtæki sem Vaxtarsamningur Suðurlands hefur stutt hafa blómstrað og dafnað vel.

Fyrri greinFræðslufundur um skátastarf
Næsta greinSkotvopnum stolið úr bílskúr á Selfossi