Skrifað undir viljayfirlýsingu um flugsafn

Í dag skrifuðu fulltrúar Íslenska flugsögufélagsins, Sveitarfélagsins Árborgar og Flugklúbbs Selfoss undir viljayfirlýsingu um stofnun flugsafns á Selfossi.

Flugsögufélagið er í dag í eittþúsund fermetra flugskýli í Fluggörðunum við Reykjavíkurflugvöll en ef fyrirætlanir borgaryfirvalda ná fram að ganga verður það hús rifið strax á næsta ári.

Í viljayfirlýsingunni felst meðal annars að Flugsafnið fær lóð við flugvöllinn þar sem hægt verður að reisa allt að 3.000 fermetra safn ásamt ívilnunum af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar.

Sigurjón Valsson, formaður Flugsögufélagsins, sagði í ávarpi að hugmyndin að því að koma á Selfoss hafi kviknað síðasta sumar en í nú í vikunni fundaði Sigurjón ásamt fleirum með bæjarráði Árborgar.

„Okkur var tekið mjög vel í bæjarráði og allt þetta mál er til fyrirmyndar um það hvernig á að standa að því að koma lífi í flugvöll. Ég vona að innan ekki mjög margra ára verði risið hér veglegt flugsafn og ég vil nota tækifærið til að þakka Sveitarfélaginu Árborg alveg sérstaklega fyrir að hafa veitt okkur þetta tækifæri að koma hingað austur,“ sagði Sigurjón.

Flugsögufélagið var stofnað árið 1977 og eru félagsmenn um eitthundrað talsins.

Safn félagsins geymir mjög mikið af merkilegum gripum, t.d. TF-ÖGN sem var fyrsta flugvélin sem var hönnuð og smíðuð á Íslandi árin 1931 til 1932, svifflugur, renniflugur og Waco tvíþekju sem er í uppgerð en slík vél var fyrsta flugvél Flugfélags Akureyrar, svo fátt eitt sé nefnt.

Undirritunin var gerð á 40 ára afmælishátíð Flugklúbbs Selfoss sem stendur nú yfir á Selfossflugvelli. Þar er fjölmenni og margt að sjá, t.d. eru listflugsýningar og karamelluflug á dagskránni.

Fyrri greinAníta Þorgerður: Málefni aldraðra og fatlaðra
Næsta greinBarros tryggði sigurinn í blálokin