Skrifað undir samning um smíði nýs Herjólfs

Vegamálastjóri og fulltrúar pólsku skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. skrifuðu undir samning um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju í dag. Nýja ferjan verður afhent sumarið 2018.

Samið var við pólsku skipasmíðastöðina Crist S.A. í Gdynia að loknu útboði sem Ríkiskaup önnuðust. Að teknu tilliti til allra þátta reyndist tilboð þeirra hagstæðast eftir að norsk skipasmíðastöð féll frá sínu tilboði.

Nýja ferjan mun rista mun grynnra en gamli Herjólfur og þannig geta siglt mun oftar í Landeyjahöfn.

Skipasmíðastöðin mun nú þegar hefjast handa við smíðina sem ljúka á sumarið 2018, eða 20. júní samkvæmt samningnum, þannig að líklega mun gamli Herjólfur sigla í síðasta sinn með gesti á þjóðhátíð í Eyjum núna í sumar.

Meginmarkmið með nýrri Vestmannaeyjarferju er að bæta samgöngur milli Vestmannaeyja og Landeyjarhafnar, einkum við erfið vetrarskilyrði. Þær áskoranir sem við er að eiga eru grunnsævi, há tíðni af þungri úthafsöldu, hliðarstraumur og mikill vindur. Til að ráða við þessar aðstæður þarf ný ferja að vera eins grunnrist og mögulegt er, en jafnframt þarf að tryggja stjórnhæfni hennar við þessar aðstæður.

Nýja ferjan á að ráða við að halda uppi samgöngum við aðstæður við Landeyjahöfn, þó þannig að þegar öldurnar eru mjög langar, og 3,5 m eða hærri, getur skipið ekki siglt á háfjöru, þ.e.a.s. sæta þarf sjávarföllum.

Teikningu af útliti nýrrar Vestmannaeyjaferju má sjá hér að neðan.