Skrifað undir þjóðarsáttmála um læsi

Í gær undirrituðu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúar átta sveitarfélaga á Suðurlandi samning ríkis og sveitarfélaga um þjóðarsáttmála um læsi.

Undirritunin fór fram á Odda á Rangárvöllum en að undirrituninni komu Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Hrunamannahreppur. Þá var sáttmálinn einnig undirritaður á Höfn við sveitarfélagið þar.

Um er að ræða átak á landsvísu til að auka lestrargetu og lesskilning barna og unglinga. Markmið sáttmálans er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun. Framlag ráðuneytisins verður í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra.

Á myndinni eru frá vinstri: Kristófer Tómasson sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, Ragnar Magnússon oddviti Hrunamannahreppi, Nanna Jónsdóttir sveitarstjóri Ásahreppi, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Benedikt Benediktsson varaoddviti Rangárþings eystra, Sandra Brá Jóhannsdóttir sveitarstjóri Skaftárhrepps, Ásgeir Magnússon sveitarstjóri Mýrdalshrepps, og Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Fyrri greinSkarphéðinn ráðinn söngstjóri á Selfossi
Næsta greinElína Hrund skipuð sóknarprestur í Odda