Skrapp í sund en átti að vera í sóttkví

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði einn aðila í síðustu viku fyrir brot á sóttvarnarlögum vegna COVID-19. Maðurinn átti að vera í sóttkví en hafði brugðið sér í sundlaugina, sér til hressingar.

Maðurinn bar því við að hafa ekki áttað sig á því að honum væri skylt að vera í heimkomusmitgát eftir komu frá því landi sem hann ferðaðist frá.

Lögreglan sendi mál mannsins til ákæruvaldsins en brot gegn skyldu þess að vera í sóttkví eru á bilinu 50 til 250 þúsund krónur og fer það eftir alvarleika brotsins hversu há sektin er.

Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur einnig fram að lögreglan hafi farið í eftirlitsferðir á veitingastaði vegna þeirra sóttvarnaráðstafana sem í gildi eru. “Ljóst er að betur má ef duga skal,” segir í dagbók lögreglu.