Skortur á íslenskum tómötum

„Þetta er skelfileg staða og í rauninni ferlegt að við getum ekki sinnt íslenska markaðnum en svona er þetta, við reynum okkar besta og erum þakklátir íslenskum neytendum, sem kaupa vörurnar okkar og velja þannig íslenskt.

Aukinn ferðamannastraumur til landsins hefur hér mikið að segja og rafmagnsmál garðyrkjunnar, það þarf að komast einhvern botn í það mál,“ segir Knútur Rafn Ármann, garðyrkjubóndi í Friðheimum í Reykholti í Biskupstungum aðspurður um viðbrögð við skort á íslenskum tómötum, en hann er einn stærsti tómataframleiðandi landsins.

Á heimasíðu Sambands garðyrkjubænda kemur fram að árið 2012 voru framleidd 1716 tonn af tómötum hér á landi en innflutningur nam 445 tonnum. Ári síðar var framleiðslan ekki nema 1559 tonn, og hafði þannig dregist saman um níu prósent frá árinu áður. Á meðan jókst innflutningur verulega og var 779 tonn í fyrra, og jókst um heil 75 prósent.

Guðjón Birgisson, garðyrkjubóndi á Melum í Hrunamannahreppi segir ræktunina ganga betur á þessu ári en í fyrra.

„Það sem gerði útslagið var veðurfarið í fyrrasumar, sem olli því að ræktunin gekk mjög hægt og uppskeran því rýrari,“ segir Guðjón. Hann segir að einnig hafi verið ákveðin áherslubreyting í tegundum sem varð til þess að færri tonn koma á markaðinn. „En þetta lítur mun betur út núna, það verður veruleg aukning í framleiðslunni og við búumst líka við aukningu í eftirspurn,“ segir Guðjón.

Fyrri greinÁrni Eiríks: Flóalistinn fyrir alla
Næsta greinHeimamenn buðu lægst í þakviðgerð