Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga samþykkti ályktun í gær þar sem samtökin lýsa yfir verulegum áhyggjum af fjölgun einstaklinga sem skráðir eru með „ótilgreint heimilisfang“, einkum í sveitarfélögum þar sem frístundabyggð er umfangsmikil og af þeirri hættu sem skapast þegar hvatt er til slíkra skráninga í þeim tilgangi að hafa áhrif á sveitarstjórnarkosningar.
Í ályktun SASS segir að slíkt grafi undan trausti, jafnræði og lýðræðislegum ferlum og skapi óvissu í stjórnsýslu og skipulagi sveitarfélaga.
SASS skorar á stjórnvöld að endurskoða lög um lögheimili og aðsetur, með það að markmiði að tryggja gegnsæi, traust og lýðræðislegan stöðugleika í sveitarstjórnarmálum.
Í gær birtist grein á sunnlenska.is eftir þrjá sveitarstjórnarfulltrúa í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem þau viðra áhyggjur sínar af því að fólk sé hvatt til að „skrá sig tímabundið“ í sveitarfélag til að kjósa, jafnvel með hugmynd um að „skrá sig til baka“ eftir kosningar.
„Þá er verið að nýta kerfið á hátt sem getur raskað trausti og jafnvægi í kosningum,“ segir í greininni.

