Stjórn Fangavarðafélags Ísland lýsir yfir þungum áhyggjum sínum af ofnýtingu fangelsa landsins. Síðastliðnar vikur hafa öll fangelsi verið yfirfull og yfirvöld
brugðið á það ráð að geyma gæsluvarðhaldsfanga á lögreglustöðvum dögum saman á meðan beðið er eftir plássi fyrir þá í fangelsunum.
„Slík fullnýting á klefaplássi er til þess fallin að skapa óvissu og óöryggi í rekstri fangelsanna þar sem torfellt er að flytja fanga milli staða og sveigjanleiki enginn til að bregðast við óvæntum uppákomum. Dæmi er um að fangar sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald án takmarkana þurfi að gista í einangrunarklefum til lengri tíma vegna ofangreinds plássleysis,“ segir í yfirlýsingu frá Fangavarðafélagi Íslands.
Þar er einnig tekið fram að ástandið bitni ekki einungis á yfirkeyrðu starfsfólki fangelsanna heldur einnig öllum fangahópnum sem líður fyrir skerta þjónustu, athygli og eftirlit.
„Á meðan svo gott sem öll laus klefapláss fara í að hýsa gæsluvarðhaldsfanga getur Fangelsismálastofnun ekki kallað inn fanga til að fullnusta dóma og enn aukast líkur á því að refsidómar dæmdra einstaklinga fyrnist,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni þar sem stjórn Fangavarðafélags Íslands skorar á stjórnvöld að bregðast við þessu fordæmalausa ástandi í fangelsiskerfinu svo hægt sé að tryggja öryggi og eðlilega starfsemi í fangelsum landsins.

