Skora á yfirvöld af auka neyðarviðbragð tafarlaust

Vestrahorn. Ljósmynd/Sigurjón Andrésson

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar hvetur ríkisvaldið til að huga að grunninnviðum í samfélaginu, t.d. með öflugri löggæslu, til að tryggja öryggi íbúa- og ferðafólks á svæðinu.

Bæjarstjórn beinir því til heilbrigðisráðherra að manna heilbrigðis- og viðbragðsþjónustu með þeim hætti að ávallt séu a.m.k. tveir læknar að störfum í sveitarfélaginu á hverjum tíma og að mönnun annarra heilbrigðisstarfsmanna sé einnig tryggð. Þá leggur bæjarstjórn áherslu á að láglendisgæsla Slysavarnarfélagsins Landsbjargar sé til staðar yfir sumarið í Öræfum eða heilbrigðisstarfsmaður á vegum HSU sem sinni bæði íbúum og ferðafólki.

Bæjarstjórn hvetur einnig umhverfis, orku, og loftlagsráðherra að gera Vatnajökulsþjóðgarði kleift að huga að öryggismálum á sínum vettvangi og að auka við landvörslu í takt við þann mikla fjölda gesta sem sækja þjóðgarðinn heim.

„Fjöldi ferðafólks eykst með hverju árinu og er öryggisviðbragð víða um sveitarfélagið í engu samræmi við fjölda fólks sem dvelur hér og fer hér um. Bæjarstjórn hvetur yfirvöld til að finna tafarlaust varanlega lausn til að auka neyðarviðbragð og tryggja öryggi ferðafólks, íbúa og þeirra sem starfa í sveitarfélaginu. Þá lýsir bæjarráð yfir vilja til samtals og samstarfs við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu svo tryggja megi áframhaldandi viðveru Láglendisvaktar félagsins í Skaftafelli í sumar,“ segir í bókun bæjarstjórnar.

Fyrri greinÁrborg aftur á toppinn eftir Suðurlandsslaginn
Næsta greinSunnlensku fjallkonurnar 2023