Skora á stjórnvöld að taka fæðuöryggi þjóðarinnar föstum tökum

Íslenskt grænmeti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hvetur stjórnvöld og landsmenn alla að taka fæðuöryggi þjóðarinnar föstum tökum. Fæðuöryggi er skilgreint sem stöðugur aðgangur allra að nægilegum, öruggum og næringarríkum mat til að mæta næringarþörfum sínum.

„Það er aðeins nú síðustu öldina sem fæðuöryggi Íslendinga hefur verið nokkuð stöðugt, en aldirnar á undan varð reglulega mannfellir vegna hungursneyða. Sú jákvæða breyting sem varð á fæðuöryggi landsmanna á 20. öldinni byggir á byltingu í landbúnaði, sjávarútvegi og samgöngum, almennt batnandi efnahag þjóðarinnar, auknu frelsi í viðskiptum milli ríkja, ásamt fleiru. Þetta virðast sjálfsagðir hlutir þegar fólk þekkir ekki annað, en þegar vá steðjar að, sem vegur að einhverjum þessara þátta, er fólk minnt á að fæðuöryggi er ekki sjálfgefið. Þá koma oft fram yfirlýsingar um að hlúa þurfi að innlendri matvælaframleiðslu, tryggja flutningsleiðir og birgðahald. Um leið og váin er afstaðin virðist þetta þó oft gleymast. Á Íslandi er og hefur afkoma sumra búgreina lengi verið óörugg og á þolmörkum. Ábyrgð neytenda er mikil en stjórnvöld leggja línurnar,“ segir í áskorun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem skorar á stjórnvöld að tryggja til framtíðar þá grunnþætti er mestu skipta varðandi fæðuöryggi þjóðarinnar.

„Þar má nefna eignarhald á jörðum, varðveislu ræktunarlands, tollvernd sem heldur, og almenna þekkingu og viðurkenningu á hæfi mismunandi landgerða til mismunandi landnota, ekki síst matvælaframleiðslu. Tryggja þarf afkomu bænda til að í framtíðinni verði einhverjir til að framleiða þau matvæli sem þjóðin þarf og hægt er að framleiða hér. Annað er ábyrgðarleysi gagnvart komandi kynslóðum og þegar allt er rakið til enda hvort sem er kolefnisspor, virðisaukandi afleiðingar, sjálfbærni, byggðamál eða búmannleg hugsun er það hið rétta enda landbúnaður styrktur og tollverndaður hjá flestum þjóðum heims. Stuðla þarf að aukinni fjölbreytni í matvælaframleiðslu, meðal annars með því að styðja við ylrækt, garðyrkju og kornrækt,“ segir ennfremur í áskoruninni og því er bætt við að miklir vannýttir möguleikar séu varðandi nýtingu íslensks korns bæði í manneldi og búfjárrækt.

„Í ylræktinni eru frábær tækifæri til að nýta hreinar orku- og vatnsauðlindir til að framleiða úrvals matvæli og blóm sem gleðja. Á sama tíma þarf að nýta styrkleika Íslands til grasræktar, sem undirstöðu nautgripa- og sauðfjárræktar. Öll viljum við að lífsgæði okkar séu og verði sem mest, til að svo verði þurfum við að lifa á því sem landið gefur okkur á sjálfbæran hátt og vera stolt af því,“ segir að lokum í áskorun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar.

Fyrri greinJónsmessuhátíðin á Eyrarbakka slegin af
Næsta grein„Gæti verið ágætis vítamínsprauta fyrir marga“