Skora á lágvöruverðsverslanir að opna á Flúðum

sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Íbúar í Hrunamannahreppi hafa hrundið af stað undirskriftasöfnun á netinu þar sem skorað er á rekstraraðila lágvöruverðsverslana að opna verslun í hreppnum.

Að sögn Daða Geirs Samúelssonar, forsvarsmanns söfnunarinnar, eru íbúar og reglulegir gestir í hreppnum þreyttir á þeirri bágbornu þjónustu sem þeir fá frá núverandi verslun. Daði segir að verslunin þjóni ekki íbúum og gestum sveitarfélagsins vel og mikil óánægja hafi verið þegar verslun Samkaupa var breytt yfir í Krambúð.

„Bæði er verðið mjög hátt og vöruúrval ekki stílað inná þarfir heimamanna og gesta sem dvelja í lengri tíma. Íbúar í hreppnum og nágrennasveitarfélögum eru rúmlega 2.600 auk þess sem yfir 7.000 sumarhús eru í uppsveitum Árnessýslu. Því teljum við forsendur vera fullnægjandi til að opna lágvöruverðverslun á Flúðum í Hrunamannahreppi, þar sem mikill vöxtur og blómlegt líf er að finna í uppsveitunum,“ segir Daði Geir.

Í dag voru 260 einstaklingar búnir að rita undir áskorunina en undirskriftasöfnunin stendur út 30. júní.

Fyrri greinUmsjónarlæknar skipaðir yfir sjúkraflutningum HSU
Næsta greinFjölbreytt dagskrá þrátt fyrir þrengingar