Skora á Alþingi að auka fjármagn í hafnabótasjóð

Bæjarstjórn Ölfuss lýsir yfir furðu á miklum niðurskurði i fjárlögum fyrir árið 2017 frá fyrra ári og samanborið við stefnumörkun ríkisins í t.a.m. nýsamþykktri samgönguáætlun.

Í frumvarpi til fjárlaga 2017 er gert ráð fyrir 212 milljónum króna í hafnabótasjóð, sem er 400 milljón króna lækkun frá árinu 2016 og í nýsamþykktri samgönguáætlun er gert ráð fyrir 1.158 milljónum króna í hafnabótasjóð.

Í bókun bæjarstjórnar Ölfuss segir að þarna sé mikið misræmi og ljóst að af mörgum arðbærum og nauðsynlegum verkefnum mun ekki verða ef þetta nær fram að ganga.

„Það hefur verið fagnaðarefni og viðurkenning fyrir sveitarfélag eins og Ölfus að horft hafi verið jákvæðum augum af ríkisins hálfu til hafnabótaverkefna enda er höfnin í Þorlákshöfn lífæð samfélagsins. Sveitarfélagið hefur á síðustu misserum og árum mátt þola samdrátt í grunnatvinnuvegi samfélagsins sem er útgerð og því hefur verið horft til nýrra verkefna fyrir höfnina. Það er ljóst að þessi áform ríkisins munu ekki hjálpa samfélaginu með nokkru móti. Bæjarstjórn skorar á Alþingi að auka það fjármagn sem ætlað er í hafnabótasjóð á komandi ári og árum,“ segir ennfremur í bókuninni.

Fyrri greinSkilti afhjúpað á Frískastaurnum
Næsta greinAukið lögreglueftirlit yfir sumartímann ekki inni á fjárlögum