Skora á Alþingi að hafna breytingum á rammaáætlun

Þjórsársveitir skora á Alþingi að afgreiða tillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar og hafna framkominni þingsályktunartillögu um breytingar á henni.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var í framhaldi af fundi framkvæmdanefndar Þjórsársveita í Þingborg þann 12. apríl sl.

Þjórsársveitir leggja þunga áherslu á og beina þeim vinsamlegu tilmælum til Alþingis að vinna við rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði sé virt og eftir henni farið.

“Rammaáætlun er unnin af fagfólki sem engin ástæða er til að vantreysta eða vefengja niðurstöðu þess. Fagleg vinnubrögð hafa verið viðhöfð um flokkun virkjanakosta þar sem tekið var tillit til þátta sem snerta nýtingu á landsvæðum og náttúruvernd. Ef ekki er farið að tillögu verkefnisstjórnar um rammaáætlun og hún gerð að pólitísku bitbeini er jafngott heima setið og af stað farið.

Stjórnarskrá Íslands gerir ráð fyrir tilurð og setningu lagaramma um mikilvæga málaflokka innan stjórnsýslunnar. Rammaáætlun var ætlað að gegna því hlutverki í flokkun verndar- og virkjanakosta. Það getur aldrei orðið sátt í þessum málum ef hægt verður að velja og hafna í ljósi skoðana, stöðu og valds ráðamanna hverju sinni. Með því að staðfesta rammaáætlun eins og hún var unnin og lögð fram er komið í veg fyrir þess háttar vinnubrögð, sem er nauðsynlegt,” segir einnig í ályktuninni.

Oddvitar og sveitarstjórar Ásahrepps, Rangárþings ytra, Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Flóahrepps skipa framkvæmdanefnd Þjórsársveita, sem eru sameiginleg hagsmunasamtök þessara sveitarfélaga. Markmið Þjórsársveita er að orkan, auðlind svæðisins, skuli nýtt við uppsprettu sína til atvinnuuppbyggingar.