Skorað á Bjarna

„Þetta er til umræðu“, segir Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi um möguleika á framboði hans til Alþingis í vor. Búið er að stofna Facebookhóp þar sem Bjarni er hvattur til framboðs.

Hópurinn „Bóksalann á þing“ var stofnaður á Facebook síðastliðinn mánudag og á síðan nú 52 stuðningsmenn. Að síðunni standa meðal annars fyrrverandi félagar í VG á Suðurlandi.

Í könnun sem Sunnlenska fréttablaðið lét vinna í desember síðastliðnum kom fram að næstum 44% íbúa Suðurkjördæmis vilja sjá Bjarna sem þingmann kjördæmisins á næsta kjörtímabili.

Bjarni segir þörf á valkosti á vinstri vængnum fyrir andstæðinga ESB aðildar, og jafnframt andófi gegn hinu sterka flokksræði íslenskra stjórnmála. „Ég tel þörf á framboði af þessu tagi, þótt ég hafi svo sem ekki hugsað mér það að það yrði ég sem yrði í framboði,“ segir Bjarni í samtali við Sunnlenska. Bjarni segir ekkert komið fram um hvernig framboðsmálum verði háttað eða hverjir fleiri séu líklegir til að fara með honum í slíkan leiðangur.

„Ég fylgist mjög vel með því hvað minn félagi Jón Bjarnason gerir, og ég útiloka ekkert að það verði til í framhaldinu einhverskonar kosningabandalag, án þess þó að til verði nýr stjórnmálaflokkur,“ segir Bjarni. Þeir Jón koma báðir úr VG, og var Bjarni um tíma upplýsingafulltrúi Jóns í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

„Ég legg ekkert áherslu á að hér sé stofnað stjórnmálaafl, heldur að hægt sé að losa stjórnmálin úr viðjum stofnanavaldsins. Við þurfum á því að halda að á þingi séu einstaklingar sem eru óháðir hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum,“ segir Bjarni, en tekur jafnframt fram að hann hafi enga ákvörðun tekið um framboð.

Fyrri greinÞrír teknir með fíkniefni
Næsta greinVinningshafar í jólastafaleiknum