Skólphreinsistöð sett upp í haust

Skólphreinsistöð sem fjarlægir allt fast efni úr frárennsli verður sett upp í Rangárþingi ytra innan tíðar.

Í síðustu viku varð óhapp við losun á úrgangi frá Reykjagarði á Hellu, sem átti að fara til förgunar í sorpstöðinni á Strönd. Mistök urðu þess valdandi að úrgangurinn fór í fráveitukerfi sveitarfélagsins og barst í Ytri Rangá, veiðimönnum til ama.

Guðfinna Þorvaldsdóttir, oddviti Rangárþings ytra, segir að um slys og um einangrað tilvik að ræða.

“Strax og sveitarfélaginu varð þetta ljóst var leitað til allra fyrirtækja á Hellu sem losa úrgang af þessu tagi og farið yfir öryggismál til að fyrirbyggja að svona geti gerst aftur. Ekki fannst neitt ábótavant hjá fyrirtækjunum,” segir í fréttatilkynningu sem Guðfinna sendi frá sér í dag.

“Rangárþing ytra er með aðgerðaáætlun til úrbóta í fráveitumálum og mun þetta slys engu breyta þeirri áætlun. Fyrr á þessu ári var fjárfest í skólphreinstöð sem fjarlægja mun allt fast efni úr frárennsli. Til stóð að búnaðurinn yrði settur upp fyrir sumarið en hann barst því miður ekki í tíma og af tilliti við ferðaþjónustuaðila á svæðinu var ákveðið að standa ekki í framkvæmdum í sumar,” segir Guðfinna ennfremur og bætir við að innan tíðar verði hafist handa við uppsetningu búnaðarins og í samráði við Heilbrigðiseftilit Suðurlands.

Sveitarfélagið harmar þetta atvik og þau óþægindi sem hafa skapast í kjölfar þess en að sögn Guðfinnu eru engin sýnileg ummerki um slysið lengur á árbakkanum. “Ytri Rangá er náttúruperla og þetta slys mun ekki breyta því að hún verður áfram aðdráttarafl fyrir veiðimenn og náttúruunnendur um ókomna tíð,” segir ennfremur í tilkynningu Guðfinnu.

Fyrri greinÍbúafundur í Vík
Næsta greinUppskeruhátíð í Hruna-mannahreppi 2011