Skólarnir verða opnir í verkfallinu

Verkfall framhaldsskólakennara hefst á mánudag en nítján kennarar við Menntaskólann á Laugarvatni fara í verkfall og um níutíu kennarar og stjórnendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

„Við hvetjum nemendur eindregið til koma í skólann og nýta sér aðstöðuna hjá okkur, það verður allt opið upp á gátt, einhverjar kennslustofur, bókasafnið og íþróttahúsið,“ segir Þórarinn Ingólfsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Á Laugarvatni verður skólinn sömuleiðis opinn, sem og heimavistirnar. „Á heimavistunum verður eftirlit samkvæmt áætlun og engin breytinga þar á,“ segir Halldór Páll Halldórsson, skólameistari.

Þá verður mötuneytið í ML opið í hádeginu fyrir nemendur sem og starfsmenn, fyrir verktaka sem eru við störf við endurbætur á einni heimavistarálmunni og fyrir nemendur Íþróttafræðaseturs Háskóla Íslands. Nítján starfsmenn verða áfram við störf í ML en það er starfsfólk í eldhúsi, þvottahúsi, á heimavistum, ræstingafólk, skólaritari, forstöðumaður bókasafnsins, umsjónarmaður fasteigna og skólameistarinn sjálfur.

Fyrri greinÖll hús tengd fyrir áramót
Næsta greinÞór mætir Grindavík í úrslitakeppninni