Skólapiltar vilja plastpokalaust Suðurland

Lífsleikniverkefni sem þrír nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurlands hafa unnið að hefur fengið mikla athygli. Þeir segja „nei takk“ við plasti og skora á Sunnlendinga að hætta að nota plastpoka.

Það eru Selfyssingarnir Jakob Burgel, Sigþór Jóhannsson og Sveinn Ægir Birgisson sem standa að verkefninu en það er sprottið upp úr verkefnavinnu í lífsleikni í FSu.

„Verkefnið var að koma á fót einhverskonar góðgerðarstarfi af nýju tagi. Við tókum nokkra daga í að velta því fyrir okkur hvað við ættum að fjalla um en komumst á endanum að niðurstöðu og úr varð þetta stórskemmtilega verkefni. Markmiðið með verkefninu sé að verslanir og íbúar á Suðurlandi hætti að nota plastpoka og maíspokar og fjölnota burðarpokar verði teknir upp í staðinn,“ segja þeir félagar.

Í kvöld höfðu hátt í þúsund manns látið sér líka við Facebooksíðuna Plastpokalaust Suðurland og þannig lagt málinu lið. Strákarnir létu ekki duga að búa til Facebooksíðu heldur lét þeir verkin tala og fengu gefins maíspoka hjá Íslenska gámafélaginu sem þeir gáfu viðskiptavinum í Bónus á Selfossi í vikunni. Maíspokar brotna auðveldlega niður á nokkrum vikum á meðan það tekur plastpoka áratugi að brotna niður.

Pokarnir frá Íslenska gámafélaginu hafa reynst vel á Ítalíu en Ítalir hafa verið „plastpokalausir“ í tíu ár. Þá hafa íbúar í Stykkishólmi stefnt á að útrýma plastpokanum og nær allar verslanir í bænum hafa hætt sölu hans. Stykkishólmur var fyrir skömmu eitt þeirra sveitarfélaga sem var tilnefnt til náttúru-og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs.

Þeir Jakob, Sigþór og Sveinn Ægir munu kynna verkefnið sitt í lífsleiknihópnum í vikunni og eru fullir tilhlökkunar hvað það varðar. „Við viljum þakka fyrir viðtökurnar en þær hafa verið ótrúlegar. Það er ljóst að þessu verkefni er alls ekki lokið og munum við halda ótrauðir áfram að vinna í þessu þangað til Suðurland verður plastpokalaust,“ segja þeir að lokum.

Fyrri grein50% afsláttur á leikskólagjöld og elsta árið frítt
Næsta greinStormur í allan dag