Skólahald fellt niður í Hveragerði til 23. mars

Grunnskólinn í Hveragerði.

Þar sem fjöldi starfsmanna og nemenda Grunnskólans í Hveragerði hafa verið settir í heimasóttkví hefur skólastjóri að höfðu samráði við bæjarstjóra ákveðið að fella niður hefðbundið skólahald dagana 16. mars til og með 23. mars.

Eins og greint var frá í gær greindist starfsmaður við skólann með COVID-19 og voru tæplega 300 nemendur skipaðir í sóttkví en sú ákvörðun hefur verið felld niður hvað varðar nemendur í 5. og 6. bekk.

Skóladagvistunin Skólasel verður einnig lokuð 16. mars til og með 23. mars enda flestir þjónustuþegar í sóttkví þann tíma.

Starfsemi á skrifstofu skólans verður mjög lítil og símsvörun takmörkuð.

Í tilkynningu frá skólanum segir að aðstæður séu með þeim hætti að ekki er hægt að uppfylla þau skilyrði sem kveðið er á um í auglýsingu um takmörkun á skólastarfi.

5. og 6. bekkur ekki í sóttkví
Sóttvarnarlæknir hefur ákveðið að fella niður sóttkví nemenda 5. og 6. bekkja þar sem þeir höfðu engin samskipti við smitaðan starfsmann. Nemendur 1., 2., 4., 7. Og 10. bekkja eru áfram í sóttkví til 23. mars.

„Þetta eru mjög sérstakir tímar sem við lifum og við erum í aðstæðum sem ekkert okkar þekkir. Við getum þó sagt að við erum að takast á við krísuástand á heimsvísu,“ segir Sævar Þór Helgason, skólastjóri, í bréfi tilkynningu frá skólanum.

Upplýsingar um fyrirkomulag náms og kennslu þennan tíma verður kynnt í póstum frá kennurum á morgun, mánudag.

Fyrri greinTæplega 300 nemendur Grunnskólans í Hveragerði í sóttkví
Næsta greinÁfram íþróttaæfingar hjá börnum og unglingum á Selfossi