Skólafólk á Selfossi sæmt pólskri heiðursorðu

(F.v.) Þorsteinn Hjartarson, Guðbjartur Ólason, Dariusz Piontkowski, Aneta Figlarska og Magdalena Markowska. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fjórir Sunnlendingar voru í morgun sæmdir heiðursorðu ríkismenntamálanefndar Póllands fyrir að byggja upp öfluga þjónustu og skólastarf í Árborg fyrir börn af pólskum uppruna og forráðamenn þeirra.

Dariusz Piontkowski, ráðuneytisstjóri í mennta- og vísindaráðuneyti Póllands, heimsótti Vallaskóla á Selfossi í morgun ásamt sendinefnd frá pólska sendiráðinu. Með í för voru einnig Monika Pobozy, skrifstofustjóri alþjóðasamstarfs í mennta- og vísindaráðuneyti Póllands og Justyna Kralisz, skrifstofustjóri Miðstöðvar þróunar pólskrar menntunar erlendis (ORPEG).

Gestir hlýða á ræðu Guðbjarts Ólasonar, skólastjóra. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þau Aneta Figlarska, kennsluráðgjafi í fjölmenningu hjá fjölskyldusviði Árborgar, Magdalena Markowska, sérkennari í Vallaskóla, Guðbjartur Ólason, skólastjóri Vallaskóla og Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs Árborgar voru sæmd heiðursorðum fyrir að styðja pólska menntun á erlendri grundu.

Guðbjartur skólastjóri bauð gestina velkomna og sagðist líta svo á að þessi viðurkenning væri fyrir samfélagið í heild sinni. Hann þakkaði einnig pólska sendiráðinu fyrir stöðugan stuðning í gegnum tíðina, bókagjafir og heimsóknir. Áður en kom svo að orðuveitingunni flutti skólahljómsveitin Nostalgía Eurovisionlagið Enga fordóma á snilldarlegan hátt.

Hljómsveitin Nostalgía spilaðir fyrir gesti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stoltar af heiðrinum
Í samtali við sunnlenska.is sögðust þær Aneta og Magdalena vera mjög stoltar af þeim heiðri sem þeim væri sýndur með orðuveitingunni.

„Já, við erum mjög glaðar með þetta. Það eru um 60 pólskir grunnskólanemendur í Sveitarfélaginu Árborg og þau eru flest í móðurmálskennslu. Það er ekki spurning að þetta er mikilvægt fyrir krakkana, til dæmis til þess að efla orðaforðann. En þetta er ekki bara málfræði, heldur kennum við líka samfélagsfræði og sögu,“ segir Magdalena, sem hefur kennt í fimm ár í Vallaskóla en Aneta hefur kennt á Selfossi frá árinu 2011.

„Það eru alltaf að bætast við nemendur hjá okkur. Pólskum börnum er að fjölga í skólunum og það er ánægjulegt að geta boðið upp á þessa kennslu. Við höfum fengið góðan stuðning frá skólastjórunum og sviðsstjóra fjölskyldusviðs Árborgar. Sveitarfélagið stendur vel að baki okkur en það eru líka fleiri tungumál kennd hér í skólanum. Við erum svo heppin að vera með foreldra og fleiri hér í samfélaginu sem eru með kennsluréttindi, þannig að við getum til dæmis einnig kennt arabísku og filippeysk mál ,“ segir Aneta að lokum.

Sendinefndin og orðuhafarnir ásamt hluta þeirra nemenda í Vallaskóla sem eru af pólskum uppruna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinUmfangsmikil verkefni framundan hjá nýrri bæjarstjórn
Næsta greinVildu gefa vörunum það pláss sem þær eiga skilið