Í síðustu viku var Skóladagur Árborgar haldinn í annað skipti fyrir allt starfsfólk leik- og grunnskóla og skólaþjónustu. Dagurinn er liður í því að styrkja samstarf og miðla upplýsingum og þekkingu á milli skóla og skólastiga í sveitarfélaginu um verkefni og faglegar áherslur sem hafa nýst vel.
Að sögn Þorsteins Hjartarsonar, fræðslustjóra Árborgar, gekk dagurinn afar vel, mikil og góð þátttaka þar sem starfsfólk vann saman og sýndi mikinn áhuga á því sem var í boði.
Í fyrirlestrum og menntabúðum var farið yfir fjölbreytt og áhugavert efni en meirihluti fyrirlesara og stjórnenda menntabúða var heimafólk.
Tvö aðalerindi dagsins voru haldin af þeim Ragnheiði Bóasdóttur, sérfræðingi hjá Mennta-og menningarmálaráðuneytinu, sem kynnti niðurstöður úttektar á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi og Valgeiri Magnússyni, markaðssérfræðingi, sem talaði um ímynd og orðræðu starfsstétta.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, ávarpaði þátttakendur og talaði m.a. um mikilvægi læsis. Fjölbreyttir fyrirlestrar voru haldnir fyrir hádegi og eftir hádegi valdi fólk sér menntabúðir, en markmið þeirra er að stuðla að aukinni umræðu á milli skólastiga og skóla og eflingu tengslanets kennara/starfsfólks. Þar miðla þátttakendur af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks hjá öðrum.
Undir lokin tróð Halldór Gylfason leikari upp með söng og gítarleik og var mikið hlegið. Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri, sleit svo samkomunni og þakkaði sérstaklega undirbúningshópnum fyrir vel unnin störf, en hann skipuðu þau Anna Ingadóttir, Ásgerður Eiríksdóttir, Anna Gína Aagested, Eva Hrönn Jónsdóttir, Hildur Bjargmundsdóttir, Kristín Guðlaug Magnúsdóttir, Kristrún Hafliðadóttir, Páll Sveinsson og Sigurður Jesson.