Skokkarinn gaf sig fram

Skokkarinn sem réðist á 12 ára dreng í Hveragerði gaf sig fram við Selfosslögreglu fljótlega eftir að lýst var eftir honum í fjölmiðlum í dag.

Eins og fram kom á sunnlenska.is í dag var ráðist á dreng í Hveragerði í gær. Skokkarinn sem í hlut átti gaf sig sjálfur fram fljótlega eftir að lýst var eftir upplýsingum um málið í fjölmiðlum.

Hann mætti til skýrslutöku hjá lögreglu á Selfossi og skýrði mál sitt. Maðurinn, sem býr á höfuðborgarsvæðinu, hafði gert sér ferð í Hveragerði til að skokka þar um götur sér til heilsubótar.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is mun málið fara í sáttameðferð. Gerandinn og fórnarlambið verða þá leidd saman og farið yfir málið. Skokkarinn sættist á að biðja drenginn afsökunar eða bæta úr með öðrum hætti.