Skógur ræktaður á 1/7 hluta sandsins yrði 2 milljarða virði eftir 50 ár

Þorlákshafnarsandur er að miklu leyti eyðimörk á láglendi en þar væri hægt að rækta skóg og hafa af honum tekjur sem kæmu þjóðarbúinu vel. Sandurinn er með mildustu og úrkomusömustu svæðum á landinu.

Þetta kemur fram í grein á vef Skógræktar ríkisins.

Í greininni kemur fram að fyrir 75 milljónir króna væri hægt að rækta nytjaskóg á um 350 hekturum, t.d. í kringum byggðina í Þorlákshöfn.

„Skógarnir yrðu fljótlega að dýrmætu útivistarsvæði fyrir íbúana og eftir því sem trén stækkuðu færu Þorlákshafnarbúar að taka eftir breytingum á veðurfari. Skógur hefur ótrúleg áhrif á veðurfar, hægir vind og hækkar þar með staðarhita þar sem skjólsins nýtur. Garðrækt yrði auðveldari við hús í Þorlákshöfn og fleiri dagar þar sem hægt yrði að sitja úti og njóta veðurblíðu.“

Auk þess yrði til verðmæt auðlind í sveitarfélaginu og ný störf við skógrækt og skógarnytjar. Talað er um að nytjaskógur með einni milljón trjáplantna skapi rúmlega fjórtán ársverk þegar upp er staðið.

„Ef ræktuð er alaskaösp í iðnviðarskógi má uppskera eftir fimmtíu ár trjávið að verðmæti um tvær milljónir króna af hverjum hektara. Hundrað hektarar gæfu samkvæmt því 200 milljónir króna. Eyðimörkin í kringum Þorlákshöfn er um 7.100 hektarar. Ef ákveðið væri að rækta ösp á sjöunda hluta þessa lands, þúsund hekturum, fengjust fyrir viðinn eftir hálfa öld tveir milljarðar króna.“