Skógræktin metur bindingu í skógi BYKO á Drumboddsstöðum

Skógræktin og BYKO hafa gert samning sín á milli um mat á bindingu skógræktar og náttúrulegra birkiskóga í landi fyrirtækisins á Drumboddsstöðum í Biskupstungum.

Að sögn Berglindar Óskar Ólafsdóttur, verkefnastjóra umhverfismála hjá BYKO, vinnur fyrirtækið hörðum höndum að því að sýna samfélagslega ábyrgð og sé úttektin á skóginum á Drumboddsstöðum sé einn liðurinn í því. Einstakt sé að fyrirtæki eigi slíka auðlind sem þessi skógur er og stuðli fyrirtækið þarna að kolefnisbindingu á móti þeirri losun sem hlýst af rekstrinum.

Nú eru liðin rúm 30 ár síðan fyrirtækið hóf gróðursetningu í land sitt á Drumboddsstöðum en starfsmenn BYKO fóru árlega að Drumboddsstöðum til að gróðursetja þar tré allt fram til ársins 2007.

Skógræktin tekur nú að sér verkefni fyrir BYKO sem felst í gagnaöflun og úrvinnslu gagna. Nú er unnið að bindingarmati til bráðabirgða út frá fyrirliggjandi upplýsingum. Frekari vinna við mat á bindingu skóglendisins á Drumboddsstöðum fer svo fram næsta sumar og haust. Lokaskýrslu er síðan að vænta í lok næsta árs.

Hreppsnefnd Biskupstungna færði BYKO 25 aspir í afmælisgjöf á 25 ára afmæli fyrirtækisins árið 1987. Hér planta þeir fyrstu öspinni ásamt fulltrúum BYKO. Meðal þeirra sem eru á myndinni eru Þorfinnur Þórarinsson á Spóastöðum, Björn Sigurðsson í Úthlíð, Svavar Sveinsson á Drumboddsstöðum, Gísli Einarsson í Kjarnholtum og Erlendur Gíslason í Dalsmynni. Fulltrúar BYKO eru Jón H. Guðmundsson, þáverandi forstjóri og Guðmundur H. Jónsson, stjórnarformaður. (Ljósmynd úr Skógræktarritinu 1-2012)
Fyrri greinÞyrla flutti tvo á sjúkrahús
Næsta greinSelfoss aftur á sigurbraut